Wednesday, November 14, 2007

Þegar maður á lífsblóm þá byggir maður hús.

Á fundi bæjarráðs þann 12. nóvember, kl. 15:00, fór fram úthlutun á byggingarrétti í Vatnsendahlíð í Kópavogi. Tillögur bæjarráðs um úthlutun voru lagðar fyrir bæjarstjórn Kópavogs þann 13. september s.l. og voru þær samþykktar. Kristjáni Inga Gunnarssyni og Sigrúnu Ingu Briem er úthlutað byggingarrétti að Stapaþingi 24 sem er stór og góð lóð á rólegum stað í næsta nágrenni við grunnskóla og leikskóla. Þetta var reyndar ekki orðað akkurat svona, þó að úthlutunin væri voða formleg þá hljómaði þetta svona í okkar eyrum. Þess má geta að Auðunn Ófeigur vinur fékk líka lóð og við óskum honum innilega til hamingju, gatan sem að hann mun byggja við ber nafn sem hæfir Auðunni eða Jötnaþing. Núna hefst skipulagning og við erum strax byrjuð að safna trjám sem við ætlum að saga niður í parket. Síðan verða líka fjöruferðir um hverja helgi þar sem við munum týna steina og búa til flísar úr þeim. Húsgögn fáum við svo í góða hirðinum og blöndunartæki verða úr gömlu húsi sem verið er að rífa uppi í Mosfellsbæ. Innréttingarnar fáum við úr B-deildunum í húsgagnaverslunum. Þar koma reglulega inn á borð skemmdar hurðir og skápar, það er ekkert mál að púsla saman mismunandi skápum og hurðum. Gæti bara orðið töff þegar búið er að mála allt grænt eins Breiðablik. Hvernig sem allt fer get ég sagt að tilfinningin er eins og þegar að Sigrún sagði mér að við værum að fara eignast barn. Vitum ekki alveg hvað við erum að fara út í. En ef að húsið heppnast jafn vel og barnið sem að við bjuggum til þá verður þetta klárlega flottasta húsið í þingunum. Svo er bara að vona að þetta verði fyrirburi, þá getum við flutt snemma inn. Alveg óþolandi þegar að þetta dregst fram yfir settan dag.